63JA ÁRA GAMALL FYRRUM LÖGREGLUMAÐUR LÉT DRAUM RÆTAST OG ÓK Á MÓTORHJÓLI ÞVERT YFIR BANDARÍKIN UM ÞJÓÐVEG 66. VEGUR VONA, SEGIR FERÐALANGURINN
Sævar Ingi Jónsson er dálítill ævintýramaður. Hann er fyrrverandi lögreglumaður til langs tíma, fjölskyldumaður og hefur starfað hjá Vegagerðinni seinni ár. Sævar hefur skipst á að búa á Akureyri og í Reykjavík en kom sér fyrir nokkrum árum endanlega fyrir í hinu bjarta norðri og er sáttur. Eða hvað? Kannski var hann pínulítið ósáttur við eitt. Hann hafði nefnilega gengið með draum í maganum um langan tíma, að aka frægasta þjóðveg heims, Route 66, frá austri til vesturs í Bandaríkjunum og var orðinn úrkula vonar um að draumurinn ætti eftir að rætast. En þá heyrði hann af nokkrum lögreglumönnum sem voru að spá í svipaða hluti. Sævar setti sig í samband við þá og til að gera langa sögu stutta sneri hann nýverið alsæll heim til Akureyrar eftir að hafa ekið 4.444 kílómetra á amerískri grundu – á Harley Davidson mótorhjóli.
Stórkostlegt, þetta var stórkostlegt, ég er stoltur að hafa látið til skarar skríða. Loksins! Jafnframt afar þakklátur eiginkonu og fjölskyldu fyrir stuðninginn við að gera þetta mögulegt“ segir Sævar og fær sér sæti á skrifstofu blaðamanns.
Hann tekur upp tölvu og sýnir blaðamanni hundruð mynda úr ferðinni. En hvert var upphaf þess að 63ja ára gamall maður ók mótorhjóli yfir þjóðveg 66?
Steinbeck áhrifavaldur
„Draumurinn kviknaði fyrir mörgum, mörgum árum eftir að ég hafði lesið Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Mér fannst, eftir lestur þeirrar bókar, í hjarta mínu að þjóðvegur 66 væri táknrænn, að hann væri tákn fyrir drauma, vonina og ósk um betra líf. Þetta var vegurinn þar sem heilu fjölskyldurnar tóku allt sitt hafurtask, hrúguðu því inn í bílinn og létu vaða, allt fram til ársins 1950. Þá var vegurinn formlega tekinn af skrá,“ segir Sævar.
En hvernig fór ferðalagið með hann? Er svona ferð ekki að einhverju leyti bæði andleg og líkamleg þrekraun? Hann brosir við og viðurkennir með semingi að glíman við veginn hafi stundum tekið á. Hann ferðaðist í 12 manna hópi sem í voru 11 karlar og ein kona og voru Íslendingarnir stundum „afar þreyttir að kvöldi dags“ eins og hann orðar það. Ýmsar óvæntar uppákomur töfðu líka ferð en gerðu með sama hætti ævintýrið eftirminnilegra. Sem dæmi þurfti hópurinn að bíða eftir leiguhjólunum. Sum hjólanna voru líka „hálfgerðar druslur“ og ekki í samræmi við samninginn. Einn daginn rigndi svo mikið að ferðalangarnir komust hvorki lönd sé strönd og vitaskuld komu upp bilanir eins og gengur. „Eiginlega fór allt skipulag úr böndunum og við máttum hafa okkur öll við að að komast þessa vegalengd á 11 sólarhringum eins og við þurftum að gera. Sumir dagarnir urðu þess vegna lengri akstursdagar en nokkur sá fyrir, mest fórum við á sjöunda hundrað kílómetra á einni dagleið.“
Ónotað krossgátublað
Sævar var langelstur íslensku ferðalanganna og segir hann að mikil orka hafi farið í að halda fullri athygli á akstrinum jafnframt því að fylgjast með umhverfinu. Líkamlega taki svona ferð líka lúmskt á. „Ég keypti krossgátublað í Fríhöfninni til að dunda mér við fyrir svefninn. En eftir að ég kom heim sá ég að þeir voru ekki margir stafirnir sem ég hafði skrifað. Maður datt út um leið og höfuðið nam við koddann á kvöldin.“
„Ferðin um þjóðveg 66 reyndi mikið á samvinnu,“ segir Sævar, „og ýmsar félagslegar lausnir. Einu sinni var svo þröngt með gistingu að margir þurftu að sofa saman í herbergi. Þá er það eitt nokkur kúnst að verða ekki viðskila við hópinn þegar menn ferðast um á mótorhjóli á götum alheimsins.“ Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið afskaplega hjálplega í umferðinni, þeir hafi gefið séns vinstri, hægri og komið þægilega á óvart. „Tillitssemin var alveg einstök og gætum við Íslendingar lært margt af Könum í því efni.“
Fjöldi draugabæja
Spurður um eftirminnilega upplifun segir vegagerðarmaðurinn að það hafi verið sérstakt að aka fram hjá fjölda draugabæja á leiðinni. Sumir þeirra minntu hann á Haganesvík þar sem byggð lagðist af eftir að vegurinn var færður til. Þar sem áður hafi staðið urmull af bensínstöðvum og alls konar þjónustu við ferðalanga ríki nú víða auðnin ein
Ýmsar skemmtilegar uppákomur urðu í ferðinni eins og gengur og voru ferðafélagarnir afar samstíga í því að njóta ferðalagsins og hafa gaman af. Til stóð að lögreglumennirnir í hópnum myndu hitta kollega sína í Chicago og endaði það með því að þeir buðu öllum hópnum í mat kvöldið fyrir brottför. „Við hittum líka í nokkrum tilfellum á ferð okkar lögreglumenn á vakt og áttum við þá skemmtileg og ánægjuleg samskipti.“ Spurður um samanburðinn á því að vera íslenskur eða amerískur lögreglumaður segir Sævar að fyrir tækja- og dellukarl eins og sig hafi ekki verið leiðinlegt að skoða amerísku lögreglubílana. „Hjá þeim eru allir bílarnir sérsmíðaðir fyrir notkun þeirra. Bíll sem er notaður í vegaeftirlit er til dæmis með mjög öfluga vél og hemla auk þess sem hann er sérstaklega innréttaður fyrir hlutverk sitt. Bíll sem notaður er í fangaflutninga er sérútbúinn með öðrum hætti. Hér á landi er þetta hins vegar þannig að það fer fram útboð, svo er samið, keyptur kannski einhver fjölskyldubíll, hann merktur og svo er skellt á hann sírenu og ljósum“, segir Sævar.
Með haglabyssu á mótorhjólinu
En hvað með vopnaburðinn? „Við hittum meðal annars lögreglumann með haglabyssu á mótorhjólinu. Það er nú kannski ekki alveg það sem maður vildi sjá hér,“ segir Sævar og hlær að tilhugsuninni, sem væntanlega er framandi í huga flestra friðsamra Íslendinga
„Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki farið þessa ferð fyrr. Mín hvatning til þeirra sem eiga sér óuppfyllta drauma er einfaldlega að láta vaða, stökkva frekar en hrökkva. Það að takast á við krefjandi verkefni gefur lífinu ómetanlegt gildi,“ segir Sævar hress og þýtur út af skrifstofu blaðamanns til starfa fyrir Vegagerðina. Hann setur bifreiðina sína í gang og ekur af stað Þórunnarstrætið til norðurs – en af svipnum af dæma er hugurinn enn bundinn við þjóðveg 66. Veg draumanna. Veg vonarinnar.