Ökuþórinn Steina Steinarsdóttir:
Steina Steinarssóttir er virkur félagi í Ferða- og útisvistarfélaginu Slóðavinum og lagði það á sig í síðustu viku að aka torfæruhjóli sínu næstum þúsund kílómetra leið sem venjulega er kölluð horn í horn. Megnið af leiðinni er á erfiðum vegaslóðum, og ekið er yfir sand, grjót og ár á leiðinni og er því ferð af þessu tagi ekki fyrir hvern sem er. Steina er að öllum líkindum fyrsta konan sem fer þessa leið hérlendis en hingað til hafa bara hraustustu karlmenn látið sig hafa það. „Fyrir mig var þetta persónulegur sigur að fara þessa leið,“ sagði Steina þegar blaðamaður náði tali af henni nýkominni heim í lok síðustu viku.
Tekur venjulega vel á
Steina er ekki óvön ferðum af þessu tagi en hún og maðurinn hennar, Ásgeir Örn Rúnarsson, eiga þetta fyrir áhugamál og ferðast margar ferðir á ári saman. „Við förum venjulega í eina stóra ferð sem er kannski þrír dagar eða svo og svo nokkrar minni. Þá er ég ekki að telja með stuttar dagsferðir í nágrenni Reykjavíkur,“sagði Steina dálítið sposk.
„Í svona slóðaakstri er 3-400 km ferð erfið viðureignar og tekur venjulega vel á,“ sagði Steina ennfremur. Leiðin sem hún lagði að baki í síðustu viku var hins vegar 982 kílómetrar sem er ekkert smáræði.
„Við lögðum af stað í hávaðaroki frá Reykjanesvita og máttum þakka fyrir að fjúka ekki útaf í sumum vindhviðunum. Svo var haldið um Djúpavatnsleið, Breiðdal og áfram að Litlu kaffistofunni í Svínahrauni í kjötsúpu hjá Stefáni Þormar veitingamanni þar. Áfram héldum við inná Hellisheiði og um Grafninginn, upp að Bragabót og yfir Þjófahraunið. Á Eyfirðingaleið lentum við í miklum sandstormi svo sá varla útúr augum. Við fórum svo niður Haukadalsheiði að Geysi þar sem stoppað var og tankað fyrir næstu áfanga ásamt um 160 lítrum á brúsum. Myrkholti var fyrsti náttstaður.
Á öðrum degi var það Hrunamannaafréttur, Línuvegur um Laxárgljúfur og Heljarkinn, Sultartangalón,Hrauneyjaar, Búðarháls, Kvíslárveitur og Nýidalur. Við gistum svo í Nýjadal, en þegar við vöknuðum þar sáum við að það var komin snjómugga úti. Á Gæsavatnaleið og Urðarháls vorum við því í fimm sentimetra snjó, en það skánaði þegar við komum upp að Flæðum, Öskju og loks í Herðubreiðarlindir. Veðrið skánaði þegar á leið en dag fjögur
keyrðum við meðfram Jökulsá á fjöllum að Grímsstöðum og svo Haugsleið sem er gömul símaleið.
Gist var á Ytra-Lóni við rætur Langaness, en lokaáfanginn á degi fimm var upp á Heiðarfjall með útsýni yfir allt Langanes, og síðan að vitanum Fonti,“ sagði kjarnakonan Steina um leiðina.
Hugurinn ber hálfa leið
Steina byrjaði að hjóla árið 2005 og er alls ekki hætt þótt þessi erfiða leið sé að baki. Hjólið sitt sem er Yamaha WR250 hefur hún átt síðan það var nýtt og hentar vel konum sem vilja prófa sportið.
„Aðalmálið er að vera vel undirbúin, á góðu hjóli og með enn betri ferðafélaga. Svo ber hugurinn mann hálfa leið líka,“ sagði Steina. Skoða má fleiri myndir á Facebook síðu Landshornaflakkara.
njall@mbl.is
Morgunblaðið 2013