Ungsokkar, ellisokkar og sukksokkar á ferð
Drullusokkarnir, mótorhjólaklúbbur frá Vestmannaeyjum, fóru í ferð um Vestfirði um miðjan júlí. Kapparnir ferðuðust um í einstakri veðurblíðu, nutu einstakrar náttúru og félagskaparins sem er engu líkur enda allt saman sérlegir áhugamenn um mótorhjól og allt sem þeim viðkemur.
„Við hjóluðum um Vestfirði í sumar, harðasti kjarninn í klúbbnum fer í stóra ferð á hverju ári. Við fórum hringveginn í fyrra, til Færeyja í hitteðfyrra og sumarið þar áður á humarhátíð á Hornafírði, og svo förum við líka helgarferðir,“ sagði Tryggvi Sigurðsson, Drullusokkur nr. 1, þegar leitað var frétta af ferðinni.
„Þetta er gaman, við náum mjög vel saman þó við séum á ólíkum aldri, t.d. eru ungu sokkarnir allt öðruvísi þenkjandi en við þessir eldri. Innan okkar raða eru ungsokkar, kvensokkar, ellisokkar og sukksokkar. Einar Sigþórs er eiginlega formaður þeirrar deildar,“ sagði Tryggvi en 205 manns eru skráðir í klúbbnum.
Áður en mótorhjólakapparnir lögðu upp í ferðina hittust þeir á Select í Mosfellsbæ um hádegi föstudagsins 10. júlí. Kapparnir voru ánægðir með að margir Vestmannaeyingar á höfuðborgarsvæðinu komu gagngert til að heilsa upp á þá áður en þeir lögðu af stað í ferðina. „Það var gaman að hitta allt þetta fólk en við vorum 24 sem lögðum af stað. Sumir fylgdu okkur áleiðis og ætluðu aldrei alla leið. Jenni sneri við í Hvalfirðinum því hann er svo slæmur í baki, var hans sárt saknað í ferðinni enda er hann mikill gleðipinni.
Í þessum ferðum eru harðir naglar sem hafa komið í allar eða nær allar ferðir sem við höfum skipulagt. Drullusokkar eins og Hermann Haralds, Steini Tótu, Dolli, Agnar Helgason, bróðir hans Helgi. Freyr Atlason hefur komið í allar ferðir, líka Vignir Sigurðsson o.fl.“
Veðrið lék við ferðalangana því þeir fengu veðurblíðu alla leiðina, ólíkt árinu á undan þegar þeir fóru hringveginn. „Við vorum í roki og rigningu þegar við fórum hringinn en í sumar fengum við sól og blíðu og yfir 20 stiga hita. Við ákváðum að sleppa Hvalfjarðargöngunum og ókum Hvalfjörðinn, og gerðum stopp í Ferstiklu, Borganesi og við Baulu. Síðan fórum við Dalina, stoppuðum í Búðardal og hjóluðum í einum rykk þaðan í Bjarkalund þar sem við borðuðum kvöldmat. Þaðan lá leiðin yfir Þorskafjarðarheiði og svo skiptum við liði. Sumir gistu á Hólmavík og aðrir í Reykjanesi. Við mæltum okkur mót þar daginn eftir og lögðum af stað í þessari líka veðurblíðu og vorum að drepast úr hita því hlífðarfatnaðurinn var alltof heitur við þessar aðstæður. Vestfirðir eru algjör náttúruperla í svona góðu veðri og frábært að ferðast þetta,“ sagði Tryggi og er í framhaldinu spurður út í vegina enda oft verið kvartað yfir slæmum vegum á Vestfjörðum.
Þökk sé útrásarvíkingunum
„Þverun Mjóafjarðar var ekki lokið en ef svo hefði verið, hefðum við verið á malbiki alla leið til Isafjarðar. Þegar við fórum fjörðinn var nýbúið að vökva veginn og við allir eins og leirkarlar þegar við komum að hinum enda brúarinnar. Við getum þakkað það útrásarvíkingunum því þeir fengu ekki Karl til að stekkja brúna. Þannig að þegar við komum inn á Súðavík þrifum við hver annan samviskusamlega með þvottakústi á bflaþvottaplaninu. Við komum inn á Isafjörð um miðjan dag á laugardag og flestir tóku því rólega en þessir bröttustu fóru inn á Bolungarvík. Þegar líða tók á kvöldið sameinuðust ung- og sukksokkar í einn hóp en ellisokkar skriðu í koju.
Á sunnudag fórum við sem leið lá í gegnum Vestfjarðagöngin og héldum á Suðureyri við Súgandafjörð og síðan inn á Flateyri. Þar var tekin ákvörðun um hvort við ættum að snúa við og fara sömu leið til baka eða halda áfram og loka Vestfjarðahringnum. Þetta var talsvert rætt og þá aðallega um malarvegina en eftir lýðræðislega kosningu var ákveðið að halda áfram. Við vorum mikið á malarvegi á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði og þegar við fórum Barðaströndina. Náttúrufegurðin er einstök og allir nutu þess að aka þarna um, annað ekki hægt.
Við gistum í Bjarkalundi á aðfaranótt sunnudags og vorum þá á slóðum Georgs Bjarnfreðarsonar og fengum meira að segja að líta pönnuna sem hann barði Guggu með. Við héldum svo í bæinn, fórum Hvalfjarðargöngin og skiptum liði í Mosfellsbæ,“ sagði Tryggvi og bætir við að öllu skipti að engin óhöpp komu upp og engin hjól biluðu.
Lífsstíll
„Við ferðumst á hjólum og erum úti í náttúrunni. Við erum með súrefnið, hjólin eru lífstfll og ástríða
og við sameinum þetta allt. Norðureyjaríbúar eru hissa á hvað við eigum langa og mikla sögu. Heita
Drullusokkar og vera með svona snyrtileg og flott mótorhjól og sjá þetta allt sem andstæður.“
Eru margir mótorhjólaklúbbar með svonaferðir á dagskránni?
„Já, það er mjög vinsælt hjá klúbbum að fara í túra. Við eigum vinaklúbb í Hafnarfirði og þeir ætluðu með en fannst þetta of langt, eru vanir að fara dagsferðir. Við getum það þegar Bakkafjara kemur, menn geta betur ráðið tímanum. Þetta er sport sem er bara hægt að stunda yfir sumartímann. Við erum 205 í klúbbnum, allt Vestmanneyingar og við erum aðeins fleiri sem búum hér, en uppi á landi. Það er ekki verra,“ sagði Tryggvi og brosti sínu breiðasta.