Hilmar Lúthersson hefur gjarnan verið kallaður „Old Timer“ af félögum sínum í Sniglunum. Hann er heiðursfélagi þeirra og ber númerið 1 og er þekktur fyrir uppgerðir sínar á breskum mótorhjólum. Hann brá þó nýlega út af vananum þegar hann gerði upp Austinbíl af 1948 árgerð, einnig breskan. „Þessi bíll er af gerðinni 16,“ segir Hilmar um leið og hann útskýrir að það sé stærsta gerð hans. „Hann er með lengra hjólahaf en 8- og 10-gerðirnar. Einnig er til gerðin 12 en sá bíll er með minni síðuventlavél.“ Bíllinn hans Hilmars er með 2200 rúmsentímetra toppventlavél sem á að vera aflmeiri, en að sögn Hilmars „vinnur hann ekki neitt þótt hann hafi smávegis meira af togi.“

Var med topplúgu
Hilmar átti sjálfur svona bíll þegar hann var ungur, en þá minni gerðina, þótt draumurinn hefði alltaf verið að eignast Austin 16. Bíllinn á ættir sinar að rekja til Bretlands en hingað kom hann árið 2000 frá Cornwall. „Uppgerðin tók ekki nema sex mánuði og á ég hana mest að þakka galdrakarlinum Kjartani Ólafssyni hjá B&L. Það þurfti mikið að föndra við hluti eins og bretti og innréttingu sem Auðunn Jónsson sá um að klæða eins og honum einum er lagið. Til dæmis hafði verið topplúga á bílnum en búið var að sparsla 20-30 kíló í gatið svo að við þurftum nánast að smíða nýjan topp,“ segir Hilmar. Það eina sem var látið óhreyft i bílnum var vél og gírkassi; enda hvort tveggja í góðu lagi.

Kostar mikið að gera upp

Eins og áður sagði er Hilmar mikill áhugamaður um gömul mótorhjól og í skúrnum hjá honum eru einnig tvö uppgerð mótorhjól frá sama tíma. Djásnin í hópnum er eflaust Ariel VG500 1946 sem hann gerði upp í „sýningarstand“ fyrir fimm árum. Síðast gerði hann svo upp AJS 5001946. „Það er ekki eins vel uppgert enda kostar það mikið,“ segir Hilmar. Það er nú samt ekki að sjá á hjólinu að á því sé neinn viðvaningsbragur, enda Hilmar þekktur fyrir vönduð vinnubrögð. „AJS-hjólið er nákvæmlega eins og Matchless-hjólin, fyrir utan merkingar og magnetu,“ segir Hilmar, en hann gerði einmitt eitt slíkt upp fyrir nokkrum árum sem hann er búinn að láta frá sér. Aðspurður hvort hann sé með eitthvað fleira í bígerð segir Hilmar að næst séu Ariel Red Hunter 1945 og BSA 1954 á dagskrá, auk tveggja skellinaðra sem honum áskotnuðust. Þær eru af gerðinni Kreidler og Rixe og vantar nokkuð í þær og væri því vel þegið ef einhver lumaði á varahlutum í þær,“ segir Hilmar að lokum.

 

 NG
DV 23.1.2003