Ferðalýsing IV

Sunnudagur 22. september.
Transfăgărășan fjallaskarð (vegurinn var valinn flottasti fjallvegur í Evrópu af Top Gear) sem hafði verið ætlunin að fara var lokaður vegna snjókomu, 50 cm djúpur snjór á veginum. Því var haldið beina leið til suðurs niður úr fjöllunum eftir hlykkjótum vegi meðal annars framhjá sígaunaþorpi.

Þegar kom niður á sléttuna hitnaði og sólin skein á akrana. Á vegi mínum urðu gamall geitasmali og rafvirki til 30 ára sem hafði svo mikinn áhuga á að tala við mig að það var nærri búið að aka yfir geiturnar hans, flugvélar við vegasjoppu og 2 franskir rally kappar á Renault 6×6 trukk. Gist var í borginni Drobeta-Turnu Sverin sem er með óvenju snyrtilega göngugötu. Komst síðar að því að borgin er að mestu byggð Sígaunum

Mánudagur 23. september.
Náði ekki 20°C og skýjað. Byrjað á að keyra meðfram Dunarea vatninu sem er að sjálfsögðu uppistöðulón, það er um 100 km langt. Skoðaði höggmynd af andliti konungsins Decebalusar sem er höggvið í klett við vatnið. Mun þetta vera stærsta svona höggmynd í Evrópu.

Síðan farið yfir til Serbíu, það var engin umferð um landamærin. Eftir að Garminn ætlaði að láta mig fara með ferju sem var búið að leggja niður fyrir löngu þá flippa hann út og þurfti að slökkva á honum með „sænska-takkanum“ (taka rafhlöðuna úr). Viðþað tók hann sönsum og var farið yfir ánna á brú ístaðinn. Síðan var keyrt í heila eilífð gegnum endalaus þorp. Það var greinilegt að fólkið var fátækt og bílarnir gamlir og lélegir. Eftir það lagaðist landslagið og að síðustu voru eknir tugir km eftir hlykkjótum dal. Endaði á aðal staðnum í bænum,
niðurníddum matsölu-og gististað. Hér var veisla í fullum gangi, tugir kalla sátu að snæðingi, síðan var spiluð nokkurs konar tyrknesk músík og einn söng viðstöðulaust í marga tíma. Hroðalegur hávaði og óhljóð. Uppúr kl 22 féll þó allt í ljúfa löð.

Þriðjudagur 24. september.
Farið af stað uppúr kl 8. Þá voru kallarnir á staðnum mættir í spjall og kaffi á matsölustaðinn. En ég hélt af stað til Svartfjallalands. Þegar þangað kom sóttist ferðin seint, vegurinn mjög hlykkjóttur og svo mjór á köflum að varla var hægt að mætast. Fór þó einu sinni í gegnum stóra borg sem var mjög snyrtileg, göturnar góðar, gangstéttir og fín hús. Endaði síðan í Kotor, á sama stað og í fyrra, eftir að hafa farið beint niður í bæinn ofan af fjallinu með 25 hárnálabeygjum.

Miðvikudagur 25. september.
Gisti á sama stað og í fyrra, kallinn kannaðist við mig og bauð nú bæði uppá morgunmat og WiFi. Fór fyrst meðfram Kotor-firði, síðan norður með ströndinni í sól og blíðu, um 25°C, inní Króatíu og

keyrði í gegnum Dubrónik þar sem var fullt af ferðamönnum á vespum. Þar kviknað viðvörun á hjólinu um að það vantaði smurolíu, svo þegar stoppað var nokkuð norðar var 0,5 l bætt við og verkfærin þurrkuð í leiðinni eftir rigninguna í Úkraínu, sem tók ekki langan tíma í blíðunni. Síðan var haldið áfram norður með ströndinni inní Bosníu þaðan aftur inní Króatíu og endaði fyrir norðan Split.

Fimmtudagur 26. september.

Gróðurlausar eyjar undan strönd Króatí

Enn blíða, keyrði áfram norður strönd Króatíu, veg í endalausum hlykkjum. Fyrst var töluverð umferð og vegaframkvæmdir, en eftir því sem norðar dró minnkaði umferðin og ferðin sóttist vel. Vegurinn var tiltölulega nýlegur, og þess vegna ekki háll, og sléttur enda er ekkert nema grjót þarna sem er góð undirstaða fyrir vegi, annað en vegirnir yfir drulluna í Úkraínu. Sumar eyjurnar fyrir utan ströndina virtust vera algjörlega gróðurlausar. Nyrst er stór borg og eftir það var komið inn í Slóveníu. Þar hlykkjaðist vegurinn eftir þröngum dölum og umhverfið var eins og í Austurríki nema ekki var hægt að skilja það sem stóð á skiltunum. Eftir nokkra leit fannst gisting á viðráðanlegu verði, en fyrsta hótelið sem var athugað kostaði 130 €. Nú fylgdu kartöflur með kjötinu en ekki þurfti að panta þær sér ein og í Austur Evrópu og morgunmaturinn var brauð og álegg. Ótrúlegt að þetta skuli hafa verið sama land og Serbía fyrir rúmum 20
árum, munurinn er ótrúlegur.

Föstudagur 27. september.

yr.no spáði rigningu í dag, en til að ná til Danmerkur í tíma þurfti samt að halda áfram þannig að það var farið í regngalla og haldið af stað. Nokkuð af leiðinni hafði ég farið áður, aðallega 2007.
Vegurinn hlykkjaðist sem áður eftir dölum og var búið að breikka hann og slétta frá því síðast, einnig var þó nokkuð um auglýsingar um gistingu, sem var alls ekki 2007. Brunað var í þurru yfir til Ítalíu, þaðan til Austurríkis, aftur til Slóveníu og til baka til Austurríkis. Þá byrjaði að rigna og það ringdi til um kl 16. Farið var yfir tvö fjallaskörð á þessari leið, 1500 og 1750 mys. Þar var heldur kalt, um 5°C, enn mjög flott þó að það væri rigning. Jafnvel þegar stytti upp var hitinn aðeins 10°C svo að endingu varð að fara í peysu.

Laugardagur 28. september.

Ekki ský á himni í dag en hitinn ekki nema 10-14°C. Haldið var áfram í norður átt, fyrst yfir til Þýskalands. Var ekki kominn nema 300 m yfir landamærin þegar þeir innfæddu voru farnir að gera við veginn eða pússa niðurföllin og þennan stutta spotta sem ekið var um Þýskaland var meiri vegavinna en í allri Úkraínu. Sá óvænt Louis búð í Passau. Var þá snarlega snúið við og keyptir varahlutir, hjálmur og regnbuxur, því þær gömlu voru lekar. Síðan var keyrt yfir til Tékklands ogfann gistingu á krá norðanlega í Tékklandi eftir að hafa ekið um akra og skóga.
Farið var í að skipta um bremsuklossa að aftan, þeir gömlu voru alveg búnir. Hér var verðlag hagstætt, rúmar 30 € fyrir gistingu, morgun- og kvöldmat.

 

frh. 11 mars á www.tian.is

Ferðasaga til Úkraínu. (Lokakafli)