Ferðalýsing V

Sunnudagur 29. september.
Áfallið hafði frosið um nóttina en um kl 10 var um 10°C. Borðaður var morgunmatur á kránni sem
var innréttuð sem veiðikrá. Ekki var ský á himni en hitinn hækkaði ekki mikið. Ekið var um akra
og skóga, mjóa og breiða vegi. Framhjá námum með stórum gröfum. Fann gistingu í gegnum
TúristInfo í þorpi ekki langt frá Þýskalandi og Póllandi. Konan sem var með gistinguna hafði lært
rússnesku í 10 ár í skóla en það var aðal tungumálið hér áður fyrir.

Mánudagur 30. september.
Eftir að hafa farið yfir götuna og keypt inn eitthvað til að hafa sem morgunmat og smurt nesti var
haldið af stað. Áður en farið var yfir til Þýskalands var keypt bensín fyrir afganginn af tékknesku
krónunum og síðan haldið áfram í norður gegnum akra og skóga. Umhverfið að sumu leiti svipað
og í Úkraínu nema vegurinn var betri, gangstéttir en ekkert fólk á gangi.

Sól skein á akra en hitinn var ekki mikill, um 12-14°C, og austan vindur. Þegar kom yfir til
Þýskalands voru heimamenn að laga göturnar og var nokkuð vesen að finna leið framhjá. Endaði í
Frankfurd am Oder, sem er alveg við landamærin, og fann þar heimagistingu en fór svo yfir til
Póllands til að kaupa bensín og borða. Fór einnig í stórmarkað til að kaupa eitthvað til að hafa fyrir
morgunmat daginn eftir. Þá vandaðist málið því fjöldi jógúrt tegunda hefði varla komist fyrir í
öllum kælinum í meðal Bónusbúð og drykkjarvöru deildin hefði ekki komist fyrir í meðal
Bónusbúð.

Þriðjudagur 1. október.
Hjólið var drifið út úr skúrnum hjá gistisalanum og fyrrverandi lestarstjóranum (kola, rafmagns og
diesel lestar) og haldið af stað.
Þetta var eins og endurtekning af gærdeginum nema nú var tekin hraðbraut að hluta með tilheyrandi
vegaframkvæmdum og sultu (traffic jam) vegna umferðarslyss. Náði að keyra milli bílanna og var
kominn að slysstaðnum þegar umferðin fór af stað. Gisti í fyrrum bændaskóla.

Miðvikudagur 2. október.
Veðrið var eins og síðustu dag svalt en heiðskýrt. Ég var búinn að verða mér úti um gistingu í
miðborg Kaupmannahafnar hjá Sveini kunningja mínum sem fer þangað öðru hvoru og vinnur við
járnsmíðar.
En fyrsta mál á dagskrá var að sækja framdekk sem búið var að panta á netinu og síðan að finna
rándýru ferjuna frá Rostock til Gedser (54 €) til að komast yfir til Sjálands. Þar þurfti að bíða í tæpa
tvo tíma eftir ferjunni, tíminn var notaður til að fara í Grænsekiosk og kaupa öl til að færa Sveini,
flöskunum var síðan raðað inni nýja dekkið. Það tók tvo tíma að komast yfir með ferjunni. Síðan
var brunað til Köben og uppúr kl 17 var ég kominn til Sveins.

Fimmtudagur 3. október.
Ekkert hjólað í dag en gengið um miðbæ Kaupmannahafnar í sól en köldu veðri enda kominn
október.

Föstudagur 4. október.
Stefnan var í dag sett á Jótland í þurru en köldu
veðri. Á brúnni yfir Stóra-Belti var rok og hjólaði
ég í skjóli af flutningabíl megnið af leiðinni.
Síðan var haldið til Haderslev þar sem ferðin hafði
í raun byrjað.

 

 

5.-7. október.
Lagt var af stað um kl 7 til að komast tímanlega til Hirtshals. Það hékk þurrt að mestu en ekki var
hlýtt.
Ekki voru margir með ferjunni nokkrir bílar og fjórhjól sem fór úr í Færeyjum.
Tvo sólarhringa tók að sigla til Færeyja og þar var farið í land að venju og fengið sér að borða þar
sem maturinn um borð er ekki góður og kostar mikið.

Þriðjudagur 8. október.
Komið var til Seyðisfjarðar um 10 leytið í góðu veðri og ákveðið var að fara með suðurströndinni til
Reykjavíkur. Að sjálfsögðu var snjór á Fjarðarheiði en ekki á sjálfum veginum. Það var gott veður
þangað til ég var kominn á suðurströndina og fór ég þá að mæta uppfenntum bílum. Mætti einnig
Þjóðverjum á hjólum sem voru á leið í ferjuna og þeir sögðu mér að það væri fært. Við Lómagnúp
var allt hvítt en vegurinn var að mestu auður. Komst síðan klakklaust til Reykjavíkur og var
kominn heim um klukkan 20.

Þetta voru rúmir 12 þúsund km sem hjólaðir voru í þessari ferð, sem er það lengsta sem ég hef farið
í svona haustferð. Ferðalagið tók 6 vikur en það hefði mátt lengja það um 1 til 2 vikur til að hafa
betri tíma til að skoða sig almennilega um.

Guðmundur Bjarnasson

Ferðasaga til Úkraínu 1. hluti  PDF
Ferðasaga til Úkraínu 2 hluti   PDF
Ferðasaga til Úrkaínu 3 hluti  PDF
Ferðasaga til Úrkaínu 4 hluti   PDF

Ferðasagan V kafli PDF