Aníta Hauksdóttir fékk krossara fyrirfram í ellefu ára afmælisgjöf og hafði prófað það einu sinni þegar hún tók þátt í sinni fyrstu keppni. Nú á hún að baki nokkra Íslandsmeistaratitla og framundan er fyrsta rafmagns mótorhjólakeppni heims þar sem hún keppir við afreksíþróttafólk frá öllum heiminum.

 

Mótorkross er sannkallað fjölskyldusport í tilfelli Anítu Hauksdóttur sem nú leiðir Íslandsmótið í Enduro og er önnur í stigum í Íslandsmótinu í mótorkrossi þegar ein keppni er eftir.

„Pabbi hefur verið mjög lengi í þessu sporti með einhverjum pásum og hann og mamma ákváðu að gefa mér hjól óvænt.“

Þegar Aníta var að verða ellefu ára gömul gáfu foreldrar henni óvænt mótorkross hjól í fyrirfram afmælisgjöf. Þar með voru örlögin ráðin og Anítu í raun hent beint í djúpu laugina þegar faðir hennar skráði hana í Speedway keppni á Neskaupsstað.

„Þar voru bara einhverjir strákar á skellinöðrum að keppa og ég hafði þá held ég prófað hjólið einu sinni. En ég tók þátt og ég skemmti mér konunglega og var ótrúlega ánægð að hafa ekki verið síðust.

Mér fannst þetta alltaf mjög skemmtilegt sport og þannig má segja að áhuginn hafi kviknað strax. Það leið svo ekki á löngu þar til mamma var komin á hjól líka orðin fertug og síung. Það gerði það að verkum að við gátum átt ótrúlega skemmtilegar stundir saman sem fjölskylda og eigum enn,“ útskýrir Aníta.

„Foreldrar mínir náðu líka svolítið að halda mér á beinu brautinni með því að halda mér í þessu sporti og ég er svo þakklát fyrir það.“

 

Mótorhjóladellan bráðsmitandi

Síðan eru liðin rúmlega tuttugu ár og fjölskyldan stundar enn keppnir hér á landi og erlendis.

„Mamma og pabbi eru að taka þátt í hardenduro keppnum á borð við RedBull Romaniacs í Rúmeníu og við öll síðan á SeatoSky í Tyrklandi ef Covid leyfir. Fyrir Covid fórum við alltaf öll saman líka til Kaliforníu að hjóla og stundum að keppa en þar eigum við góða vini sem fara með okkur í allskonar ævintýri. Það er ómetanlegt að geta öll stundað sömu íþróttina svona lengi saman og átt svona góðar stundir saman. Þar að auki er svo ótrúlega skemmtilegt fólk í þessu sporti hérna heima sem verður hálfpartinn fjölskyldan manns.“

Ekki nóg með að foreldrarnir séu líka að keppa heldur hafa enn fleiri fjölskyldumeðlimir smitast af bakteríunni. Aníta er í sambúð með Hafsteini Einarssyni og eiga þau saman soninn Heimi Adel tveggja ára og fyrir átti Aníta, Talíu Björk, tíu ára. Í dag eiga allir fjölskyldumeðlimir mótorhjól.

„Það er sennilega erfitt að koma inní fjölskylduna mína án þess að fá þessa mótorhjóladellu en það leið ekki á löngu eftir að við Hafsteinn byrjuðum saman að hann var komin á hjól. Hann er alveg með delluna eins og við hin og getur hjólað með okkur. Þannig það er alveg óhætt að segja að við náum að dreifa hjólabakteríunni,“ segir Aníta og hlær.

Tveggja ára kominn á mótorhjól

 

Börnin tvö eru þar ekki undanskilin en dóttirin fékk sitt hjól þegar hún var að nálgast þriggja ára aldurinn.

„Það var rafmagnshjól með hjálparadekkjum sem hægt var að stilla kraftinn af. Nú er hún bara komin á alvöru krosshjól og fer oftast á æfingu með ömmu sinni einu sinni í viku,“ segir Aníta og bendir á að barnastarfið í íþróttinni sé frábært.

 

„Það er mikil og góð þróun og lætur manni líða eins og þetta sé loksins orðin alvöru íþrótt – enda verða það yngri kynslóðirnar sem viðhalda þessu frábæra sporti eftir nokkur ár.“

Dóttirin æfir sig svo líka í bakgarðinum hjá afa sínum og gera þau saman tækniæfingar.

„Og núna loksins fékk stubburinn hann Heimir sitt fyrsta hjól – rafmagnshjól með hjálparadekkjum og hann er sko alveg sjúkur! Ég hugsa að hann myndi alveg flytja yfir til ömmu og afa ef hann fengið að ráða og vera á hjólinu öllum stundum.“

 

Konurnar orðnar öflugar

Aníta segir kynjaskiptinguna í íþróttinni hafa breyst mikið frá því hún byrjaði sjálf að keppa.


„Þá vorum við held ég bara einhverjar þrjár, fjórar stelpur og vorum látnar hjóla með 85cc stráka flokknum. Þannig var það eiginlega alveg ótrúlega lengi þar til að við vorum líklega bara orðnar of margar og á stórum hjólum í þokkabót þannig að loksins varð til kvennaflokkur.

Í kringum 2007-2008 vorum við fullur flokkur eða um 30 stelpur í sér flokk að keppa til íslandsmeistara. Svo hefur þetta farið svolítið upp og niður en núna virðist vera að fjölga aftur hjá okkur og það er svo frábært að sjá margar nýjar stelpur koma og taka þetta skref að byrja að keppa. Þær eru orðnar ansi öflugar fljótt svo maður veit að flokkurinn verður bara skemmtilegri á komandi árum,“ segir Aníta sátt.

„Nú vantar bara að fá fleiri af þessum stelpum með í Enduroið en þar erum við bara í mesta lagi fimm að keppa og oftast ekki nema þrjár.“

Aníta segist ekki upplifa mótorkross sem karlasport enda sé mikill áhugi hjá kvenþjóðinni.

„Ég upplifi frekar að við hjálpum hver annarri að komast áfram og læra meira.“

Barnshafandi í keppni

 

Aníta á að baki tvo Íslandsmeistaratitla í mótorkrossi og þrjá í Enduro. Eins hefur hún þrisvar hlotið titilinn aksturíþróttakona ársins.

„Ég er samt sennilega tífaldur annars sætis meistari sem er ansi skondið. En ég náði líka að klára RedBull Romaniacs árið 2018 þegar ég var ófrísk af syni mínum Heimi. Ég er mjög ánægð með það afrek og auðvitað ráðfærði ég mig við lækni áður en ég tók þessa ákvörðun um að keppa komin átta, níu vikur á leið.

Ég ældi aðeins inn á milli en náði að njóta mín á hjólinu og komst alla leið sem „finisher”. Mamma aftur á móti fótbrotnaði á degi tvö og þar skildu leiðir en við ætluðum að reyna að klára saman. En svo kláruðum við mamma brons leiðina í SeaToSky árið 2019 sem er held ég mín uppáhalds minning.“

Keppir við heimsmeistara

 

Aníta undirbýr sig nú fyrir keppni sem haldin verður í mánuðinum á eyjunni Gotlandi við Svíþjóð. Um er að ræða fyrstu keppnina þar sem aðeins verður notast við rafmagns motorcross hjól.

„Eingöngu 16 manns víðsvegar að úr heiminum fengu boð í keppnina en þetta hljómaði eiginlega of gott til að vera satt enda boðið upp á flug, gistingu og uppihald og auðvitað myndu þau útvega hjól.

Þegar ég fór svo að skoða keppnina komst ég að því að hinir 15 sem fengu boð eru risa afreksíþróttamenn úr öllum áttum. Meðal annars verður þarna sexfaldur heimsmeistari kvenna í mótorkrossi, tvöfaldur heimsmeistari karla í Enduro, sjöfaldur Supermoto of nations meistari, núverandi heimsmeistari karla í downhill fjallahjólreiðum og fleiri risa nöfn.

Ég er ekki einu sinni nálægt því að vera í sama styrkleika og þessir keppendur en engu að síður er það bara rosalegt að fá að taka start með þessum hópi. Mig grunar að við höfum öll svipað litla reynslu af því að keyra rafmagns krosshjól sem ég held að sé gjörólíkt venjulegum mótorkrosshjólum.“

 

Aníta segist ekki einu sinni vita hvort það sé kúpling og gírar á þessum hjólum.

„En við fáum æfingadaga á undan keppninni. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu og hæstánægð með að hafa fengið styrk frá Hreysti og Púkanum til að geta undirbúið mig almennilega. Það skiptir sköpum að hafa góða stuðningsaðila í svona dýru sporti en mamma og pabbi eru auðvitað aðal stuðningsaðilarnir .“


Lykilatriði að vera í dúndur formi

Aníta segir mótorkross og enduro æfingar tímafrekar og því æfi hún sig mikið á reiðhjólum líka.

„Ég reyni að komast á að minnsta kosti einhverja æfingu sex sinnum í viku, hvort sem það er að reiðhjólast eða í ræktina eða eitthvað með hokkí stelpunum,“ segir Aníta og útskýrir að hún hafi byrjað að æfa hokkí í vetur og heillast af íþróttinni.

„En það er alveg algjört lykilatriði að vera í dúndur formi til þess að geta stundað þetta sport af alvöru og allar þessar íþróttir hjálpa mér með það.

Margar vinkonur mínar eru farnar að spyrja mig hvort ég þurfi ekki að fara að hætta þessu en ég bara sé lífið ekki fyrir mér án motocross og enduro enda varla þekkt annað meira en hálfa ævina. Ég fer bara í 30+ flokkinn næst – þegar þessar yngri fara að stinga mig af. Mamma nálgast jú sextugt og er samt hörku hjólari í 30+ flokknum.“

Hægt er að fylgjast með Anítu og keppninni á instagram reikningi hennar, anitah31. ■

Fréttablaðið   7. ágúst 2021
Björk Eiðsdóttir