Guðmundur Bjarnason tæknifræðingur, Guðmundur Björnsson læknir og Ólafur Gylfason flugstjóri hafa lokið ferð sinni á mótorhjólum þvert yfir Bandaríkin. Lögðu þeir upp frá Vancouver í suðvesturhluta Bandaríkjanna og komu til Orlando í Flórída um helgina. Lögðu þeir að baki 4.689 mílur eða 7.545 kílómetra á leiðinni og hjóluðu um 12 ríki Bandaríkjanna á 19 dögum.
Í dagbók úr ferðinni á heimasíðu um leiðangurinn segja þremenningarnir að tilfinningin í ferðalok sé engu lík. „Við gerðum það sem marga dreymir um, að fara þvert yfir Ameríku, heila heimsálfu á mótorhjóli og höfum farið yfir þrjú tímabelti. Okkur tókst það sem við héldum að við myndum aldrei ná og hvað þá að leggja út í. Það er þrekvirki andlega og líkamlega að takast á við heila heimsálfu, ekki það að við séum að miklast af því, það er einfaldlega staðreynd. Það er ekki hægt að lýsa því hvernig er að ferðast um á mótorhjóli þvert yfir Bandaríki Norður Ameríku, upplifa breytingar á veðri, landslagi, gróðri, lykt, hitastigi, rakastigi, fólki, litarhætti, trúarbrögðum, menningu, arkitektúr, efnahag, viðmóti og svo mætti lengi telja. Þetta er ólýsanlegt og menn verða bara að upplifa það sjálfir. Þetta er þolraun, sem tekur á líkama og sál. Við erum fegnir því að allt gekk vel og erum þakklátir þeim sem næst okkur standa fyrir að veita okkur tækifæri og sýna skilning á því að við urðum að takast á við þennan æskudraum. Við erum líka þakklátir okkur sjálfum fyrir að leyfa okkur að láta hann rætast. Það er heilsusamlegt að láta drauma sína rætast. Við fyllumst nú einhverri innri ró sem erfitt er að lýsa, líklega hafa landkönnuðir allra tíma sótt í sama brunn og við,“ segir meðal annars í ítarlegri dagbók leiðangursmanna við ferðalok.
með mynd :
Guðmundur Bjarnason, Ólafur Gylfason og Guðmundur Björnsson á strönd Flórída við ferðalok en að baki eru 7.545 kílómetrar yfir þver Bandaríkin.
mbl.is 2001