Elín Sif Sigurjónsdóttir fór í sína fyrstu mótorhjólaferð í sumar ásamt eiginmanninum og vinahjónum. Hún segir bráðnauðsynlegt fyrir barnafólk að komast út að leika sér endrum og eins og er kolfallin fyrir mótorhjólasportinu.

Við höfðum verið á ferðinni með hjólhýsið og krakkana fyrir austan í meira en viku þegar vinahjón okkar hringdu skyndilega og buðu okkur í mótorhjólaferð í Bárðardal. Við gerum allt of sjaldan eitthvað bara fyrir okkur tvö svo við drifum okkur heim, losuðum okkur við hjólhýsið og brunuðum í Bárðardal með
hjólin á kerru. Þar fóru krakkarnir í pössun hjá ömmu og afa og við upp á fjöll. Þetta var æðisleg ferð,“ segir Elín Sif Sigurjónsdóttir. Hún fór í sína fyrstu
mótorhjólaferð í sumar ásamt eiginmanninum og tvennum vinahjónum.

Hún segir nauðsynlegt að kúpla sig út úr amstri hversdagsins endrum og eins og gera eitthvað saman.
„Við sem fórum í þessa ferð erum öll á sama báti, stöndum í barnauppeldi með öllu því sem fylgir og það var alveg ótrúlega gaman að bruna þarna frír og frjáls, bara fyrir sjálfan sig í einn dag. Í raun bara að leika sér,“ segir Elín og hlær. „Það er svo mikils virði að við gátum gert þetta saman hjónin, keyrt eins og villingar og ögrað sjálfum okkur,“ bætir hún við en segir kankvís að allur akstur hafi farið fram innan lagalegra marka.
„Við ókum aldrei utan vega eða neitt slíkt, en það var aðeins gefið í. Við keyrðum upp hjá Stórutungu í Bárðardal og upp í Réttartorfu. Þar vorum við með aðsetur og hjóluðum um nágrennið. Við stoppuðum oft og borðuðum nesti og spjölluðum og nutum veðurblíðunnar og útsýnisins. Ég var til dæmis að keyra í fyrsta skipti yfir á og svo keyrðum við í móa og í sandi og hrauni. Þetta reyndi heilmikið á og ég fékk hressilega strengi í lærin daginn eftir.“

Elín hafði lengi talað um að taka mótorhjólapróf þegar hún dreif loks í því fyrir ári. Hún keypti sér hjól, KTM 250, og ætlaði að sjá til hvort hún myndi endast í sportinu.
Nú segir hún að ekki verði aftur snúið, hjólabakterían hafi tekið sér bólfestu. „Ég hafði ekki hugmynd um hvort ég myndi þora eða hvort mér myndi líka þetta yfirleitt. Ég þorði til dæmis ekki að setja hjólið í gang þegar ég fór að skoða það, sagði bara „flott“ og keypti það,“ rifjar Elín upp hlæjandi. „En þetta er alveg temmilegur kraftur fyrir mig, maður verður að þekkja sín takmörk.“

Elín segir upplifunina í mótorhjólaferðum allt aðra en þegar ferðast er í bíl. Frelsistilfinningin sé engu lík. „Ég líki þessu meira við að fara í útreiðartúr en í bíltúr. Maður er svo miklu tengdari náttúrunni. Svo er auðvitað misjafnt hvernig fólk gerir þetta. Sumir keyra bara á fullu gasi og ná þá ekki að njóta umhverfisins en við vorum að stoppa og slappa af líka. Það keyrðu bara allir á sínum hraða. Þetta var ótrúlega gaman og við komum endurnærð til baka. Það er strax búið að plana næstu ferð að ári og þá ætlum við að gista. Komum börnunum bara aftur fyrir í pössun. Þetta er eitthvað sem við gerum bara saman hjónin,“ segir Elín.

Fréttablaðið
21.8.2013
■heida@365.is