...

Ferðalýsing III

Þriðjudagur 17. september.
Þar sem það þurfti að ganga upp á fjórar hæð til að komast á aðra hæð vegahótelsins var eingöngu tekinn upp á herbergið farangur sem hægt var að komast með í einni ferð. Í matstofu hótelsins voru borð og stólar merkt Tuborg og Carlsberg, en það sem var þó merkilegast var að kælirinn var mektur Albaní sem er aðal öl og gosdrykkja verksmiðjan í Odense. Hvernig kælirinn komst alla leið til Svartahafsins frá Danmörku væri forvitnilegt að vita. Í bænum var risastór skipasmíðastöð sem virtist ekki vera í notkun.

Síðan var haldið áfram og ekið suður og vestur með strönd Krímskagans í góðu veðri, gegnum vínekrur og stundum niður við sjó en stundum yfir fjöll. Margir bílar með rússnesk númer voru á ferðinni og einnig nokkur mótorhjól sem annars sjást nánast ekki í Úkraínu.
Þegar kom að því að finna gistingu fundust bara flott hótel og var þá haldið niður á strönd en þar virtist allt vera lokað. Fann þar samt hótel en það reyndist uppbókað, konan í lobbíinu hringdi og sagði síðan að ég gæti fengið gistingu annars staðar fyrir tæpar 35 €, ég ætti bara að bíða í 15 mínútur og þá yrði ég sóttur. Gistingin reyndist vera heilt hús ekki langt frá. Kallinn sem var með húsið fylgdi mér síðan á strand-veitingarstað til að borða þar sem ekki er hægt að segja almennilega til vegar því allt er svo ruglingslegt og óskipulagt.

Miðvikudagur 18. september.
Umhverfis húsið var 2,5 m há girðing og húsráðandi hafði læst hliðinu, ég varð því að bíða þar til hann kom um morguninn til að hleypa mér út.  Þar sem yr.no sagði að það ætti að fara að rigna uppúr hádegi var pantað hótel í hæfilegri fjarlægð og brunað af stað um kl 9. Leiðin var um akurlendi sem var skorið í sundur af stórum áveituskurðum.

Á öllum gatnamótum var fólk að selja grænmeti. Hálftíma áður en komið var á hótelið byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu. Ég náði inn á bensínstöð og kom mér í regngallann áður en aðal rigningin byrjaði en síðan beið ég undir þaki bensínstöðvarinnar á meðan aðal skúrin gekk yfir. Göturnar í kringum hótelið voru lélegar og hálar enda allt á floti og stórir pollar. Hótelið fannst síðan vandræðalaust með hjálp Garmins.
Í þessari borg virðast ekki vera venjulegar kjörbúðir heldur þarf að segja eða benda á það sem kaupa á og er það síðan rétt yfir borðið.

Fimmtudagur 19. september.
Frekar kalt, um 12-15°C, og vindur. Rennt til Odessa og stiginn skoðaður og þar með búið að ná takmarki ferðarinnar og hægt að halda heim á leið.
Hér eru upplýsingar um stigann:  
Stiginn er frægur úr myndinni Battleship Potemkin frá 1925 þar sem barnavagn fer stjórnlaust niður stigann.

En það sem gerir stigann merkilegan er að hann er breiðari að neðan en ofan og því virðist hann  vera lengri þegar horft er upp eftir honum en mun styttri þegar horft er niður. Í miðborginni er mikið af gömlum húsum sem verða lélegri er utar dregur og í borginni eru einnig hverfi með gömlum kommablokkum. Umferðin var gríðarleg og varð að aka á milli bílanna á kafla.

Eftir stigaskoðunina var haldið út úr borginni í hreinna loft og ekið í ca 1 tíma, en þar var búið að panta herbergi á strandhóteli. Ekki var staðsetningin á hreinu þannig að nafnið var skrifað á miða og líkleg staðsetning sett í Garmin. Þegar á staðinn var komið var stoppað hjá verði sem stóð við hlið fyrir utan stóra byggingu og honum réttur miðinn, náunginn var þá einmitt vörður á rétta hótelinu.
Hótelið samanstóð af nokkrum húsum báðum megin vegarins og var verið að rífa sum húsin niður, líklega til að byggja stærri. Það voru annars fáir ferðamenn og flestar gistingar lokaðar eða hálfbyggðar.
Keyrði framhjá risabyggingum sem hafa staðið hálfkláraðar í mörg ár.

Föstudagur 20. september.
Hitinn 12-19°C og sól með köflum. Lagt af stað snemma og stefnan tekin á Rúmeníu. Til að komast þangað verður að fara í gegnum Moldavíu, þar sem engin brú eða ferja er á Dóná sem aðskilur Úkraínu og Rúmeníu. Þar sem þær upplýsingar sem ég hafði voru á þá lund að í Moldavíu væri mikið um ribbalda og ræningja, sem eru að vísu auðþekktir þar sem þeir ganga um í einkennisbúnaði lögreglumanna, var ákveðið að fara stystu leið í gegn og urðu þetta 2.5 km.
Ferðin gekk vel í fyrstu, sæmilegur vegur en síðan fór að verða lítið um mannaferðir, malbikið hvarf og við blasti leir-troðningur gegnum votlendi og brú í miðjunni. Þetta hefði nú ekki verið neitt mál ef ekki hefði ringt nýlega og leirinn þar af leiðandi blautur og háll.

Ég ákvað að ganga að brúnni og skoða hvort hægt væri að komast yfir hana og reyndist svo vera, restin virtist svo vera í lagi. Gekk þetta ágætlega upp á brúnna og var hægt að keyra í fyrsta gír án þess að snuða kúplinguna að ráði, en eftir brúnna versnaði í því, varð þá mjög hált og endaði á því að framdekkið rann til hliðar og hjólið seig á vinstri hliðina. Eftir að búið var að reisa það við og skoða aðstæður var haldið áfram. Þurfti að láta kúplinguna snuða þar sem púlsarnir frá mótornum í hægagangi voru nægir til að afturdekkið missti grip og fór að renna til. Þegar uppá malbikið var komið var þykkt leirlag á dekkjunum og malbikið mjótt vegna gróðurs í köntunum. Eftir dálítinn spotta birtist hrörlegt og stórt fjós, síðan fleiri hús og fólk, síðan mætti ég ísbílnum og þá vissi ég að þetta yrði í lag.
Nokkrum árum síðar fann ég út að það hafði verið komin ný brú yfir lækinn nokkru neðar en hún var hvorki til staðar á Google-maps eða í Garmin kortinu þegar ég var að plana leiðina um morguninn.
Eftir aðra 100 km var komið að landamærum Moldavíu. Þar var aðalmálið að fá smá miða stimplaðan með 4 stimplum og borga 2 € í mengunarskatt. Keyra síðan 2,5 km og þar voru landamæri við Rúmeníu, þar þurfti ekki að safna stimplum en passi og skráningarskírteini skoðað í tuttugasta skipti. Þetta tók allt saman 2.5 tíma og hefði gengið betur ef feiti Moldavinn á landamærastöðinni hefði ekki ruglað Íslandi og Írlandi saman.
Miðað við Úkraínu þá eru vegirnir betri í Rúmeníu, villihundarnir stærri, bílarnir betri, fullt af bílasölum, loftið betra (engir Kamas trukkar) en kvenfólkið ekki eins myndalegt.

Laugardagur 21. september.
Hitinn náði varla að fara yfir 10°C í dag og eftir ca 40 km byrjaði að rigna eins og yr.no hafði spáð. Stefnan hafði verið tekin á Bran kastala sem var í 60-70 km fjarlægð og í bænum við kastalann var fundið hótel. Síðan var labbað um með regnhlíf og kastalinn skoðaður.
Þetta var einn af þessum Dragúla köstulum sem eru í Rúmeníu, en þar eru nokkrir kastalar sem kenndir eru við Dragúla greifa. Kastalinn er ekki mjög stór og ekkert nema ranghalar og svalir. Maður fær að fara um nokkuð stóran hluta hans. Þegar út kom var helli rigning og kom þá regnhlífin sér vel. Þó að þetta sé fínt hótel þá virkar netið illa og ekki á herberginu. Semsagt rólegur en blautur dagur…….

frh. 8 mars á www.tian.is

Ferðasaga til Úkraínu 4.hluti

Ferðasaga til Úkraínu. (Lokakafli)

 

 

 

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.