Ferðasaga í fimm hlutum.
eftir Guðmund Bjarnasson

Ferðalýsing I

Síðan 2005 hef ég farið á eigin hjóli til Evrópu flest haust, fyrst á Ducati ST3 og síðan á BMW
1200 GSA. Venjulega nota ég september í þessar ferðir, þá er ennþá sumar í Evrópu og flest allt
opið en mun færri ferðamenn en um hásumarið, auðveldara að finna gistingu og hún á betra verði.
Oftast geri ég lauslega áætlun um það hvert á að halda, er með nokkra staði sem væri rétt að skoða
en síðan ræður veður töluverðu um það hvaða leið er farinn.

Haustið 2013 var stefnan sett á Úkraínu til að taka mynd af tröppunum sem eru í borginni Odessa á
bökkum Svartahafsins.
Úkraína var hluti Sovétríkjanna frá 1922 til ágúst 1991. Hlutirnir eru því svipaðir og í Rússlandi en
kosturinn við að fara til Úkraínu er að Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun.
Hér á eftir fer dagbók sem ég hélt í ferðinni.

Miðvikudagur 28. ágúst.
Uppúr kl 7 var haldið á stað frá Reykjavík til Seyðsfjarðar. Hékk þurrt norður yfir Holtavörðuheiði
en eftir það létti til og á Möðrudalsöræfunum var sól. Kom til Egilsstaða um kl 15 og þar var
keyptur hamborgari, benzín og nesti.
Síðan yfir til Seyðisfjarðar og farið fljótlega um borð í Norrænu.
Var í klefa með ungum hjólamanni sem var MJÖG fámáll, fullorðnum þjóðverja á HD, sem hafði
dottið tvisvar en var óslasaður, og fullum Færeying, honum var síðan skipt út í Færeyjum fyrir
þýskum dorgveiðimanni. Það var frekar gott í sjóinn og nánast engin hreyfing eftir Færeyjar. Fór í
land í Þórshöfn til að skoða mig um, þar var að sjálfsögðu lágskýjað.

Laugardagur 31. ágúst.
Kom til Hirthals um morguninn, þar var sól en vestan rok og því þreytandi að hjóla til Haderslev á
suður Jótlandi, en þar var ég búinn að sníkja gistingu hjá vinum mínum í nokkra daga.

Mánudagur 2. september.
Í dag var farið yfir til Þýskalands til að skipta um afturdekk sem búið var að panta á netinu.

Þriðjudagur 3. september.
Farið með hjólið á BMW verkstæði vegna innköllunar frá verksmiðjunni. Síðan var ætlunin að
hjóla hring en það voru ekki til réttir varahlutir svo hjólið var skilið eftir og Anton, sem á heima rétt
hjá þar sem ég gisti og hafði tekið að sér að vera leiðsögumaður um Jótland, skutlaði mér til baka í
skúraveðri.

Miðvikudagur 4. september.
Fór með Antoni og sótti hjólið. Fórum síðan að heimsækja yngri prinsinn, hann Joachim, sem á
heima í Schackenborg kastala en hann var ekki heima. Kíktum í staðin á gamla hlöðu sem búið er
að gera upp. Síðan haldið til Römö en þar er hægt að aka niður í fjöru og var því hjólað niður í
flæðarmál, þarna var næstum logn sem gerist nánast aldrei. Þetta var hringur uppá rúma 200 km.
Anton stjórnaði för en hann er á FJR 1300.

Fimmtudagur 5. september.
Haldið af stað suður á bóginn. Sólskinið sem búið var að spá í nokkra daga af veðurfræðingum í DK
var hulið skýjum. En af stað var haldið um kl 10 og ekin hraðbraut í suður, sólin kom á þýsku
landamærunum og síðan hitnaði, fór mest í 29,5°C. Um kl 17 var ég kominn til Harz-fjallanna sem
eru rétt fyrir sunnan Hannover og er svæðið bæði í austur og vestur Þýskalandi. Fór á túrist info til
að fá gistingu en það var nánast allt fullt, fékk eina nótt á 40 €. Það var víst hestamannamót þó að
ég sæi aðeins ellismelli í fríi.

Föstudagur 6. september.
Hjólað um Harz sem er fjalllendi með hlykkjóttum vegum. Það var sól og hitinn 25-28°C. Pantaði
gistingu á netinu á öðrum stað á 37 €, fékk ekki góðan fisk í matinn í kvöld.

Laugardagur 7. september.
Haldið yfir til Tékklands í sól og hita, meiri hluti leiðarinnar á hraðbraut og endað fyrir austan Prag.
Gisting heldur ódýrari en í Þýskalandi, 2 nætur á 35 €, og kvöldmatur steikt fiðurfé, ís, kaffi og bjór
á 9 €. Á svæðinu var greinilega allt að gerast, bæði Motocross keppni og Crosscountry reiðhjólakeppni og síðan voru heimamenn að bera saman bækur sínar yfir bjórglösum.

Sunnudagur 8. september.
Fór fyrst að skoða beinakirkjuna í Kutna Horas sem ég hafði séð í myndinni “LongWay Round”
http://en.wikipedia.org/wiki/Sedlec_Ossuary

Fór síðan norður undir landamærin að Póllandi en þar er heldur hálendara. Mjög mikið af fólki á
mótorhjólum, sumum lá á en öðrum ekki, nokkrir voru t.d. á MZ tvígengis, og nokkrir að viðra
fornbílana sína. Keyrði inná veg með rásmerkingum og stjórnturni en þarna eru haldnar mótorhjóla
keppnir á venjulegum vegum.

 

Ferðasaga til Úkraínu 2.hluti

Ferðasaga til Úkraínu 3.hluti

Ferðasaga til Úkraínu 4.hluti

Ferðasaga til Úkraínu. (Lokakafli)