Tickets Generated by WPRaffle TixGenSilver

Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu

Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu

3,000kr.

„Eg sit í eldhúsinu mínu heima á Fáskrúðsfirði í náttbuxunum, komið fram á miðjan dag. Það er sunnudagur, slydduhríðin lemur á gluggunum og heimurinn stendur í stað. Glæpasaga á borðinu, tekex, ostur og sulta. Þvottavélin malar og þvær af mér föt sem voru eiginlega ekki skítug þegar þeim var stungið í belginn. Ísskápurinn er fullur af mat, húsið hlýtt og notalegt, kötturinn malar í kjöltunni á mér og hundurinn kúrir við fæturna. Lúxus. Ekkert aðkallandi, ekkert stress, ekkert að gera nema það sem ég nenni að gera – sem er ekkert.“

Svona hefst kaflinn „Þægindahringurinn“ í bókinni „Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu“ þar sem Unnur lýsir hversdagslegum sunnudegi í lífi sínu skömmu áður en þau hjónin fóru af stað í 5 mánaða ferðalag um mið-Asíu á tveimur mótorhjólum. Í því ferðalagi heyrðu svona letidagar sögunni til enda var tekist á við aðstæður sem fyrir flesta eru töluvert utan þægindahringsins.

Sagan er sögð frá sjónarhóli konu og lýsir baráttu við krefjandi vegakerfi, samskiptum við fólk með gjörólíkan menningarbakgrunn, ægifagurri náttúru og óvægnum náttúruöflum og dásamlegum dögum á mótorhjólum. Það að kona er sögumaður gefur þessari mótorhjólaferðabók nokkuð óvenjulegt yfirbragð. Málefni eins og hvar á að pissa og hvernig tekist er á við aðstæður sem virðast vonlausar við fyrstu sýn eru krufin á gamansaman og hlýlegan hátt og inn í fléttast kátbrosleg samskipti við innfædda á hverjum stað með tilheyrandi misskilningum á báða bóga, upplifanir af framandi stöðum og persónulegir sigrar.

Bókin er fallega uppsett með fjölda ljósmynda sem lýsa glögglega því sem þau hjónin tókust á við á ferðum sínum. Hún er að öllu leyti unnin á Austurlandi – gefin út á Fáskrúðsfirði, hönnun og prentun fór fram í Héraðsprenti á Egilsstöðum og prófarkalestur og andlegur stuðningur var á hendi Bókstafs sem einnig er á Egilsstöðum.

21 á lager

Flokkur:

Allur ágóði af sölu bókarinnar renna til mótorhjólasafns íslands.