...

Ferðalýsing II

Mánudagur 9. september.
Var haldið til borgarinnar Brno í austur Tékklandi. Rigning var um morguninn en stytti síðan upp. Gisti fyrir utan borgina við uppistöðulón, en öll vötn í Tékklandi eru uppistöðulón að því er ég fæ best séð. Í Brno er kappakstursbraut fyrir meðal annars Formula 1, brautin er uppi á hæð og inni í skógi ásamt golfvelli, komst að þessu eftir vettvangskönnun.

Þriðjudagur 10. september.
Þá var haldið til Slóvakíu. Það hékk þurrt í dag. Í Slóvakíu er notuð €, þar er meira af fjöllum og skógi en í Tékklandi og meira af ökrum í órækt. Sá einnig fyrsta hestvagninn og sígauna. Gisti við
sama vatn og í fyrra en á öðru hóteli, því þar sem ég gisti í fyrra voru komnir nýir eigendur með mikið af auglýsingaskiltum og allt fullt. Var í staðin á fyrrverandi flottu hóteli sem reyndist vera í lagi að innan, verð innan við 30 € með morgun- og kvöldmat. Skaffaði ungum tölvu-og mótorhjólamanni, sem var að forrita vatnsorkuver í nágrenninu, æfingu í ensku talmáli og hann gat upplýst mig við hverju væri að búast þegar farið er yfir landamærin til Úkraníu.

Miðvikudagur 11. september.
Það var hjólað niður úr Tatrafjöllunum. Þorpin hérna í austur Slóvakíu eru farin að líkjast þorpum í Rúmeníu og umhverfið er meira í ætt við Sovétríkin, meðal annars með stórum minnismerkjum. Þorp í Slóvakíu Minnismerki um hermenn.  Fann hótel eftir nokkra leit við vatn sem er að sjálfsögðu uppistöðulón. Hér er greinilega meira stuð á sumrin heldur en á þessum tíms árs, var nánast einn á hótelinu sem er um 20 km frá Úkraínu. Hékk þurrt á leiðinni hingað en byrjaði síðan að rigna.

Fimmtudagur 12. september.
Lagt í hann til Úkraínu, lítil umferð á landamærunum og engin bið, þurfti að tala við nokkra landamæraverði og athuga stellnúmer á hjólinu. Það sem er aðal málið er að fá miða stimplaðan með 2 stimplum hjá konu sem skrifar inn í tölvu upplýsingar með EINUM fingri, miðinn er síðan afhentur síðustu landamæravörðunum.
Síðan var farið í að kaupa bensín en hér kostar líterinn ca 1 € í staðin fyrir um 1,6o € í Þýskalandi. Eftir það var lagt af stað og ekið í áttina til Lviv eftir verstu vegum sem um getur.
Á kafla var betra að aka við hliðina á veginum en þetta hafðist allt. Fann hótel í blokkarhverfi í útjaðri Lviv sem er eftirlíking af Víkingakastala og með afgirtan bjórgarð fyrir utan. Hafði séð mynd á Booking.com þar sem hjóli var lagt í bjórgarðinum. Reyndist auðsótt mál að fá að leggja hjólinu þar, en umhverfis garðinn var 2 m há girðing sem var læst yfir nóttina.

Föstudagur 13. september.
Það var rigning í morgun en stytti síðan upp. Svindlað mér með rafstrætó inní miðborgina, þar sem ég fann ekki út úr því hvar ég átti að borga, og skoðaði kirkjur, því þær eru margar og auðfundnar.
Ég var ekki með kort af borginni svo annað, svo sem söfn og þess háttar fundust ekki enda er hér notað ólesanlegt letur og allt á útlensku. Kirkjan að utan, er fábrotin Kirkjan að innan, mjög skreytt
Brælan af gömlum Moskum, Lödum, Volgum og rússneskum diesel rútum- og vörubílum er hroðaleg inni í borginn, sumir ganga fyrir LCG-gasi en það er litlu skárra, bensín bílarnir hljóta allir að vera með innsogið fast á. Ég fór tilbaka í mjög fornum rafstrætó og náði að borga farið til baka, sem var nú ekki dýrt eða 0,15 €.

Laugardagur 14. september
Haldið af stað í suð-austur átt og stefnan tekin á gamalt virki þar sem átti að vera hægt að fá gistingu. Vegurinn heldur skárri en á leiðinni til Lviv. Var stoppaður nokkrum sinnum af löggunni, en það er lögreglu vörður við öll aðal gatnamót og einnig þegar ekið er inn eða útúr öllum stærri bæjum.
Sá síðasti sem stoppaði mig sagði að ég hefði farið yfir heila línu og vildi fá 80 € til að láta sektina hverfa. Ég sýndi honum í veskið og sagðist ekki hafa pening. Í veskinu voru 3 UAH, sem eru um
0.3 € en þá kom hann auga á íslenskann 500 kall, rauðan og flottan, og langaði mikið í. Hélt hann að seðilinn samsvaraði 500 $ en ég sagði að það væri nær 100 $ en hann var mjög ánægður með
það, skyldu síðan leiðir og undu báðir glaðir við sitt. Í norð-vestur hluta Úkraníu voru vandræði með lögregluna á þessum tíma og er reyndar ennþá að því er ég best veit. Ferðalangar sumir hverjir hafa þurft að borga fleiri hundruð € á ferð um þennan hluta Úkraínu í mútur.
Náði síðan að skoða virkið. Það var hátíð í þorpinu hjá kastalanum, töluvert af fólki, mat og tónleikar. Gisti á ranghala-kastala-hóteli þar sem hjólið var læst inní í porti bakvið hótelið ásamt nokkrum bílum.
Kastalinn sem var skoðaður Einn af matarsölumönnunum

Sunnudagur 15. september.
Í morgun rigndi en ég fór snemma af stað til að ná að skoða eldflaugskotbyrgi sem er fyrir atomsprengjur frá tíma Kalda stríðsins, en mikil fjöldi slíkra flauga var staðsettur í Úkraínu á þeim tíma og voru þær smíðaðar í Úkraníu. Malbikið á leiðinni var mjög hált í rigningunni og hjólið skriplaði aðeins til þar sem vegurinn var ósléttastur, en þetta gekk allt. Kom að byrginu rétt fyrir kl 16 og fékk leiðsögn hjá gömlum starfsmanni, ásamt tveimur innfæddum ferðamönnum og einum smáhundi. Eldflaugarnar og stjórnstöðin voru neðanjarðar og áttu að þola kjarorkuárás og einnig áttu hermennirnir að geta búið þarna án utanaðkomandi aðstoðar í marga daga á stríðstímum. Þarna voru einnig skemmtilegir bílar, smíðaðir í Hvíta-Rússlandi, til að flytja flaugarnar. Líkan af stjórnstöð fyrir eldflaugarnar, Rofinn til að ræsa eldflaugarnar næstneðst er stjórnherbergið
Bíll til að flytja eldflaugarnar 40 m langar flaugar, samskonar og voru sendar til Kúbu.
Í næstu borg fyrir sunnan skotbyrgin fann ég hótel sem var í endanum á komma-blokk. Hótelið var nýlega standsett en samt var þessi sérstaka lykt sem ég hef fundið áður í svona blokkum. Hjólið var geymt innan girðingar hjá gömlum bílastæða passara sem hélt til í hrörlegum grænum skúr. Fyrir utan borgina voru tvö verksmiðjuhús með flestum gluggum brotnum og að hruni komin. Sýndist mér að þetta væru kjarnorkuver og með aðstoð google kom síðar í ljós að þarna voru 7 eða 8 kjarnaofnar og voru sumir þeirra ennþá í notkun þrátt fyrir að byggingarnar væru æði hrörlegar.

Mánudagur 16.september.
Haldið af stað snemma og stefnan sett á Krímskagann og Svartahafið. Þurrt í dag og endaði í um 20°C. Nú var allt orðið sléttara og hluti af leiðinni var á nokkurs konar hraðbraut, svipuð og á Sandskeiðinu en án þrenginga, en með gangbrautum með jöfnu millibili. Akrar svo langt sem augað eygði, sumir mjög stórir og aðrir litlir með grænmeti, sem var síðan til sölu meðfram veginum. Risa stórir akrar Sölubásar í tuga tali
Þegar ég var að plana ferðina hafði ég lesið ferðasögu eftir Dana sem hafði farið til Úkraníu árið áður. Ég hafði síðan samband við söguritara og sagði hann að ég yrði að fara leið um sandeiði sem heitir Arabat Spit og er austast á Krímskaganum. Sandeiðið er 70 km langt þar sem ekið er eftir mörgum slóðum og allir með þvottabretti. Sumt það svakalegasta sem ég hef séð, hefði þurft minnst 150 km/h hraða til að láta hjólið fljóta yfir en 80 km/h dugar venjulega. Annars staðar var bleyta og hálka því þetta er eins konar leir-sandur, það var því sikksakkað á milli slóða til að reyna að finna skásta slóðann. Afturdemparinn var orðinn svo heitur í
lokin að hann var hættur að virka. Náði síðan að finna vegahótel ca 20 km eftir að þvottabrettinu lauk, rétt fyrir myrkur. Hjólinu var lagt fyrir aftan hótelið, eina skiptið í Úkraínu sem það var ekki á læstu plani yfir nóttina.

Frh  6.mars

Ferðasaga til Úkraínu 3.hluti

Ferðasaga til Úkraínu 4.hluti

Ferðasaga til Úkraínu. (Lokakafli)

Seraphinite AcceleratorOptimized by Seraphinite Accelerator
Turns on site high speed to be attractive for people and search engines.